10/4/2021
Duckhorn vínin okkar fá frábæra dóma!
Stefán Guðjónsson hefur verið viðloðandi vín og vínumfjöllun í mörg ár. Á sínum yngri árum tók hann þátt í ýmsum vínþjónakeppnum hérlendis og meðal annars vann fimm sinnum og lenti í öðru sæti fimm sinnum af tíu keppnum sem hann tók þátt í.
Í árferði því sem við höfum upplifað undanfarna mánuði er kannski ekki úr vegi að víkka aðeins sjóndeildarhringinn - það er vor í lofti og það styttist í að grillin verði tekin í notkun á sólpöllum landsmanna.
Þá getur verið gott að skoða hvaða borðvín hentar með góðri máltíð.
Stefán Guðjónsson vínþjónn með meiru fjallar um Duchorn vínin okkar og er heldur betur ánægður með útkomuna.
Hér er glæsileg umfjöllun Vínsmakkarans í heild sinni.
Ég er einn af mörgum sem finnst Duckhorn Merlot með þeim allra bestu Merlot í Bandaríkjunum, og þó flestir vínáhugamenn kannist við það vín, vita fáir hér á landi að Duckhorn er með mjög breitt úrval af víni yfir höfuð.
Vín úrvalið þeirra teygist alla leið frá Paso Robles, Central Caost, Napa og Sonoma alveg upp í Washington fylki!
Fyrir alls ekki löngu síðan tók umboðsaðili Duckhorn ákvörðun um að flytja inn vín frá fleiri svæðum sem þeir eiga, og ég fékk tækifæri á að smakka vínin hægt og rólega.
Ég tók þá ákvörðun að fjalla um vínin í þrennu lagi og blanda saman mismunandi svæðum, verði og tegundum til að krydda þetta aðeins upp svo ykkur leiðist ekki.
Við skulum byrja á víni frá Napa og Paso Robles.
Postmark, Cabernet Sauvignon 2019
Postmark, Cabernet Sauvignon 2019 frá Paso Robles er án efa með betri vínum frá þessu svæði sem ég hef smakkað.
Vel vandað og opið í nefinu með angan af papriku, sólberjum og svörtum pipar.
Þetta er bragðmikið vín með helling af pipar, kaffi, brómberjum, skógarberjum, dökku súkkulaði og alkohól keim.
Eftirbragðið er mjög langt og svíður aðeins í lokin, trúlega vegna mikils alkohol magns.
Frábært vín sem þarf aðeins að umhella og geyma til að mýkja aðeins.
En frábær kaup á aðeins 4.755 kr. (ég reikna með að þetta fáist á sama verði og PM frá Napa Valley).
Postmark, Cabernet Sauvignon 2018
Postmark, Cabernet Sauvignon 2018 frá Napa Valley sýnir augljóslega að jarðvegur (jafnvel í Kaliforníu) hefur mikið að segja þó sama vínþrúga og sama framleiðslu aðferð sé notuð.
Þó vínið sé kröftugt í nefinu, er meiri lykt af dökku súkkulaði, vanillu og alkohóli í þessu víni en frá Paso Robles. Bragðið er frábært með mikið af súkkulaði, brómberjum, kaffi, vanillu, og kryddi.
Eftirbragðið er mjög langt og tannínríkt, og einnig er þetta vín ári eldra en Paso Robles PM sem gerir vínið aðeins mýkra. Aftur frábært verð eða aðeins 4.755 kr.
Paraduxx Napa Valley 2014
Paraduxx Napa Valley 2014, er mjög sérstakt vín, blandað af Cabernet Sauvignon, Zinfandel, Petite Verdot, Petite Sirah, Syrah, Cabernet Franc og Malbec!
Vínið er gríðarlega kröftugt og bragðmikið og bæði í lykt og bragði má finna bláber, mjólkursúkkulaði, espresso kaffi, brómberja sultu og vanillu.
Eftirbragðið er langt og alkohólríkt. Þetta vín er orðið 7 ára og sennilega í besta formi sínu núna svo það er óþarfi að geyma það en gæðin eiga eftir að haldast í 3-4 ár í viðbót. Verðið er: 6.091
Goldeneye Pinot Noir 2016
Goldeneye Pinot Noir 2016 frá Anderson Valley, sýnir enn og aftur að hægt er að framleiða gott Pinot Noir í Kaliforníu.
Þetta vín mun flokkast undir silkimjúkt og fínlegt Pinot Noir, ekkert ósvipað og hágæða Burgúnd Premier Cru.
Hér höfum við kirsuber, lyngber og cedrus í nefinu, og bragð af lyngberjum, cedrus og hafrakexi, með góðu jafnvægi á milli tanníns og ávaxta. Vínið er frábært núna, njótið þess með góðu fuglakjöti. Verðið er 6.484 kr.
Calera Pinot Noir 2015, Central Coast, Kalifornía, U.S.A.
Ég tók sérstaklega fyrir þetta vín um daginn en finnst það þess virði að setja það með hér.
Það er sjaldan sem ég smakka vín sem ég segi „holy shit“ eftir fyrsta sopann og þá meina ég í góðri merkingu.
Ég var svolítið varkár þegar ég opnaði flöskuna, „myndi þetta vera of gamalt, hvernig eldist Central Coast Pinot?“. En áhyggjurnar voru óþarfar, vínið var í topp standi!!
Vínið er mjög opið í nefinu með kirsuberja, létt eikar og jarðvegs einkenni. Svo kemur sprenging í bragðinu, eik, ristað brauð, trufflur, ljóst súkkulaði, kaffi og kirsuber kemur allt í gegn! Eftirbragðið er mjög tannínríkt og situr vel og lengi í munni. EN ekki gleyma, þetta er Pinot Noir, ekki eitthvert skrímsli og þar af leiðandi silkimjúkt og fínlegt vín.
Þetta er frábært vín og tilvalið með kalkún. Yfirleitt fjalla ég ekki um vín sem fæst bara í sérpöntun en verðið 4.519 kr., miðað við gæði er of gott til að sleppa. Til að fá astoð við kaupin er hægt að hafa samband við foroyabjor@foroyabjor.is eða gsm: 770 3434.
Decoy Cabernet Sauvignon 2018.
Ekta Kaliforníu Cabernet, bragðmikið og meðal þungt vín með papriku og brómber í nefinu. Græn paprika, brómber, sólber, pipar, púðursykur og negull eru mest áberandi í bragðinu, og það er mjög gott jafnvægi á milli tanníns og ávaxta í bragðinu. Vínið á að njóta góðs af því að þroskast í 3-4 ár í viðbót. Þetta vín sé ég alveg fyrir mér með góðum grilluðum lamba kótilettum. Verðið er 4.781 kr.
Hér má skoða vef Vínsmakkarans.